top of page

SAGAN

Færa má rök fyrir því að Víkingar hafi fundið upp Krikket. Í Eglu er greinargóð lýsing á boltaleik sem átti sér stað nálægt Hvítá árið 911. Við upphaf leiks var hópi vaskra drengja skipt í tvö lið og att Egill, þá 7 ára kappi við Grím sem var þremur árum eldri og rammur að afli. Tókust þeir á með kylfum og stympingum um harðan knöttinn (líklega trékúla lík þeirri sem notuð er í krikket) þar til Egill missti stjórn á skapi sínu og tók að berja Grím með kylfunni. Við það greip Grímur um Egil og keyrði í jörðina og hét því að sá hefði verra af ef hann héldi sér ekki á mottunni. Egill vék af velli en kom skömmu síðar með öxi að vopni sem hann keyrði í höfuð Gríms sem lést samstundis. Að leik loknum lágu  sjö manns í valnum.


Krikket hefur breyst í áranna rás og með þeim hætti að áflog eru sjaldséð og kylfum einungis beitt gegn kúlunni. Eina hættan er sú að verða fyrir henni því hún er hörð viðkomu og getur náð yfir 100 km/klst í leiknum.


Segir fátt af krikketiðkunn hér á landi þar til á hernámsárinu 1944 að konunglegi flugherinn (RAF) sigraði konunglega sjóherinn (Royal Navy) í tveimur leikjum í Reykjavík með 36 stigum (hlaupum) í fyrri leiknum og 24 í þeim seinni.

 • 1999   Upphafið að krikketiðkunn íslendinga má rekja til frumkvæðis Ragnars Kristinssonar sem fylgdist með undanúrslitum heimsmeistarakeppninnar milli Ástralíu og Suður Afríku þegar hann var í fríi suður á Kýpur. Í kjölfarið hóf hann að skipuleggja æfingar og fór sú fyrsta fram í Elliðaárdal.

 • 2000   Tvö lið voru sett á laggirnar, Kylfan og Glaumur og fyrsta keppnin þeirra á milli fór fram á Stykkishólmi. Glaumur sigraði í fyrsta leiknum og Kylfan í þeim seinni en Samuel Gill, sem enn er virkur félagi varð vitni að þessari endurvakningu krikkets á Íslandi. Æfingar fluttu fljótlega á Tungubakkavelli þar sem fyrsti alþjóðlegi krikketleikurinn fór fram milli Íslands og gestaliðs Jonathans Rule, lögmanns frá Manchester. Ísland sigraði 107-94.

 • 2001   Þriðja íslenska krikketliðið leit dagsins ljós þegar liði Tryggingamiðstöðvarinnar var teflt fram sérstaklega vegna umfjöllunar Sky sjónvarpsstöðvarinnar og mætti það sameinuðu liði Kylfunnar og Glaums. Fyrrnefnda liðið laut í lægra haldi en leikurinn náði alþjóðlegri athygli.

 • 2002   Krikketæfingar fluttust frá Tungubakkavöllum yfir á Víðistaðatún vegna framkvæmda.

 • 2003   Aftur var flutt og nú í Laugardal. Enska liðið Effigies ásamt BBC þulinum Henry Blofeld kom til íslands í keppnisferð og fór einn leikur fram að nóttu til í miðnætursól og annar á ónefndum jökli. Af öðru fréttnæmu það árið var að Bruce Dickinson söngvari Iron Maiden flaug liðinu til Íslands og spilaði með gestunum.

 • 2004   Breskt pappírsfyrirtæki stóð að þriðju keppnisferð gestaliðs til Íslands.

 • 2005   Asískir verkamenn starfandi við virkjunarframkvæmdir að Kárahnjúkum áttu sviðið.

 • 2006   Æfingar héldu áfram en nokkuð tilviljunarkennt og látlaust, nú á Klambratúni.

 • 2007   Fjórða gestaliðið til Íslands kom undir merkjum DHL.

 • 2008   Ráðgjafafyrirtækið Tata hóf starfsemi í Reykjavík og með því fluttu nokkrir indverjar sem þekktu vel til íþróttarinnar. Varð þannig hægt að efna til fjögurra liða móts milli 1. og 2. flokks Kylfunnar gegn 1. og 2. liði Tata. Þessu til viðbótar kom fimmta gestaliðið til Íslands Ovingdean að nafni frá Englandi.

 • 2009   Bankahrunið flæmdi á brott starfsfólk Tata en á fjörurnar rak hinsvegar heimsfræga krikketstjörnu Sachin Tendulkar frá Indlandi sem hingað kom til að spila golf.

 • 2010   Tendulkar varð fyrsti krikketkylfingurinn til að skora 200 stig í eins dags keppni (ODI) afrek sem rataði í fréttirnar. Önnur þekkt stjarna, Lalit Modi kom til Íslands og fullyrti pressan að hann hyggðist sæja hér um hæli. Þessu neitaði hann daginn eftir.

 • 2011   Krikketlið frá Englandi „Fellowship of Fairly Odd Places“ var hið sjötta í röð gestaliða að heimsækja Ísland og það eina sem unnið hefur þrennu hér á landi.

 • 2012   Krikket æfingar stundaðar óreglubundið á Klambratúni.

 • 2013   Klambratún var áfram miðstöð æfinga þó svo að undirlagið sem Effigies gaf starfinu á Íslandi árið 2003 var grafið upp og því fargað.

 • 2014   Sjöunda gestaliðið sem heimsótti Ísland og hið fyrsta utan Englands hét Celtic Ice og kom alla leið frá Ástralíu.

 • 2015   Keppnishald fluttist í Kórinn þar sem keppt var við 4 gestalið: Columbia frá Bandaríkjunum, Galah frá Ástralíu, Carmel frá Wales og Dollar frá Skotlandi.  Undir lok ársins hafði ástundun aukist það mikið að efniviður var í tvö heimalið í fyrsta sinn síðan árið 2008. Nýja liðið, Kópavogur, sigraði Reykjavík (áður Kylfan) með sjö vikum (e. wickets) og sigraði á endanum fyrstu keppnisröðina 3-2.

 • 2016   Kópavogur sigraði aðra mótaröðina  3-2. Gestaliðið Masstor frá Englandi, hið tólfta í röðinni mætti heimamönnum. Íslenska landsliðið fór í sína fyrstu utanlandsferð til Tékklands á alþjóðlega Pepsimótið en auk liða frá gestgjöfunum og Íslandi voru lið frá Austurríki, Katar, Svíðþjóð og Sviss. Ísland varð í 5. sæti af þessum 6 þátttökuþjóðum.

 • 2017   Reykjavík náði fram hefndum eftir tapið frá árinu áður 3-2. Annarri utanlandsferðinni var heitið til Englands og mætti liðið Bedfordshire og Berkshire. Heimsóknir fjögurra enskra liða fylgdi svo í kjölfarið: Allez Les Bloggers, Hackney Village (Dushan Bandara setti Íslandsmet með 127 stigum (hlaup) gegn 45 boltum í sömu lotu), Antelopians og Authors. Aftur sótti Íslenska landsliðið til Tékklands á Pepsimótið og mætti gestgjöfunum, og liðum frá Englandi, Rússlandi, Indlandi og Sviss. Aftur varð Ísland í 6. sæti.

 • 2018   Innlenda mótaröðin hlaut nafnið Eldfjallaaska (Volcanic Ashes, heiti eftir frægri mótaröð englendinga og ástrala sem heitir Ashes) og sigraði Kópavogur 3-2. Sumarsólstöðusnerrunni var stofnuð, sex leikja viðureign milli fimm liða og bættust þannig 3 lið við þau sem fyrir voru, frá Seltjarnarnesi, Garðabæ og Hafnarfirði.  Garðabær bar sigur úr býtum. Í fjórðu keppnisferðinni var England sótt heim og eftirfarandi liðum mætt:  MCC, Club Cricket Conference, Authors og Rest of the World XI undir forystu landsliðskempu Ný-Sjálendinga Iain O´Brien. Keppnisferðinni lauk með fyrsta landsleik Íslands á móti Sviss að St. George´s College í Weybridge. Ísland skoraði 330-7 í 50 lokum (Dushan Bandara með 134 stig gegn 50 boltum).   Svisslendingar voru felldir í 27 lokum með 115 stig. Fimmta utanlandsferðin var svo endurkoma til Tékklands á Pepsimótið og voru aðrir gestir frá Bandaríkjunum, Indlandi og Sviss og enn aftur endaði íslenska liðið í 5. sæti af 6 liðum.

 • 2019   Fór fram leikjaröðin Eldfjallaaska  í 5. skipti og vann Reykjavík sannfærandi sigur á Kópavogi með 4 sigrum gegn 1.  Við bættist sigur í Sumarsólstöðusnerrunni (6 liða leikar) og varð Reykjavík þannig fyrsta liðið til að vinna tvöfalt.  Íslenska landsliðið lék í fyrsta skipti í alþjóðlegri T20 keppni um Valletta bikarinn á Möltu en varð að lúta í lægra haldi fyrir andstæðingunum sem voru Malta, Tékkland og Ungverjaland.

 • 2020   Tókst Kópavogi að hefna ófara ársins á undan með 3 sigrum gegn 2 sigrum Reykjavíkur í sjöttu leikjaröðinni um Eldfjallaöskuna.  Reykjavík náði þó að bæta sig síðar og sigraði Sumarsólstöðusnerruna eins og árið áður.  Kópavogur náði þó að tvöfalda árangur sinn á árinu með því að verða fyrsti Úrvalsdeildarmeistarinn eftir úrslitaviðureign við Reykjavík.


 

 

 

 

bottom of page